Pólitísk björgunarúrræði sem bjaga fjármálamarkað geta orðið ávanabindandi fyrir ríki og erfitt getur reynst að aflétta þeim vegna vandamála sem geta fylgt í kjölfarið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Gillian Tett á vef Financial Times.

Í greininni er fjallað um íslenska efnahagskerfið í kjölfar hrunsins og þá sérstaklega gjaldeyrishöftin. Fjallað er um þann mikla árangur sem náðst hefur í efnhagsmálum á síðustu árum. Ýmsar atvinnugreinar, svosem ferðaþjónusta og orkufyrirtæki hafi tekið við sér og ýtt undir stöðugan bata og hagvöxt. Staðan sé þannig í dag að Seðlabankastjóri hafi varað við þenslu í hagkerfinu.

Tett segir að árangur Íslands sé þó ekki eins mikill og hann virðist í fyrstu vegna gjaldeyrishafta. Ísland sé mjög skuldsett og vegna haftanna hafi ekki þurft að takast á við það mikla vandamál sem fylgi krónueignum erlendra kröfuhafa á Íslandi. Hún segir að vissulega hafi gjaldeyrishöftin hjálpað til við að ná stöðugleika á Íslandi á síðustu árum en þau hafi einnig komið í veg fyrir að stjórnvöld þyrftu að takast á við mikil vandamál. Tett segir þó að vandamálin verði ekki flúin - stóra spurningin sé hversu lengi stjórnvöld geti frestað því að takast á við þau.

Tett segir jafnramt að stjórnvöld á Íslandi hafi þjóðernissinnuð viðhorf og því muni erlendum kröfuhöfum ekki vera gefið neitt eftir í málinu. Því sé líklegt að málið muni annað hvort enda fyrir dómstólum, eða að stjórnvöld haldi áfram að framlengja þetta „tímabundna“ úrræði.