Stjórnvöld í Grikklandi ættu að geta afnumið fjármagnsshöftin í landinu á þessu ári, en þeim var komið á seinasta sumar. Höftin takmarka magnið sem taka má út úr bönkum landsins við 420 evrur á viku.

Þeim var komið á í kjölfar þess að ótti við að landið myndi ekki haldast inní evrusamstarfinu leiddi til þess að meira en 50 milljarðar evra voru teknar út úr bönkum landsins frá nóvember 2014 til júlímánaðar síðasta árs.

Aðgangur að ódýru fjármagni

Þetta segir Louka Katseli, stjórnarformaður bankasamtaka Grikklands og bankastjóri National Bank, næststærsta banka landsins. Næsta skref í þá átt væri fyrir Seðlabanka Evrópu að gefa grískum bönkum aðgang að ódýru fjármagni með því að samþykkja veð í gískum skuldabréfum.

Grísk skuldabréf eru í ruslflokki samkvæmt matsfyrirtækjum en talið er að á fundi bankastjórnar seðlabankans þann 22. júní næstkomandi muni vera ákveðið að horfa megi framhjá því.

Þó eru nokkur erfið skilyrði eftir fyrir því að hægt sé að aflétta höftunum.

„Að endurheimta innlánin er erfiðast, sem þýðir að það mun taka tíma, vegna þess að fólk er ennþá tortryggið,“ segir Katseli.