Viðskiptaráð Íslands segir að fjármagnskostnaður sé dragbítur á samkeppnishæfni landsins. Þetta er meðal þess sem fram kemur á vef Viðskiptaráðs .

Segir meðal annars að hagkvæm fjármögnun sé einn af lykilþáttum í að auka samkeppnishæfni landsins og þrátt fyrir lækkun meginvaxta og aðrar framfarir er Ísland enn talsvert á eftir hinum Norðurlöndunum þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja.

„Á hverju ári gerir viðskiptaháskólinn IMD úttekt á samkeppnishæfni ríkja. Niðurstöður úttektarinnar gefa vísbendingar um stöðu þjóða og hvernig þeim muni vegna á komandi árum en mikil fylgni er á milli góðra lífskjara og mikillar samkeppnishæfni. Samkvæmt niðurstöðum fyrir 2020 er Ísland í 21. sæti í samkeppnishæfni og féll um eitt sæti á milli ára. Áhugavert er að rýna í þær stærðir sem ákvarða stöðu okkar en í úttekt IMD endurspeglast að Ísland stendur framarlega á mörgum sviðum, til dæmis hvað varðar atvinnustig, jafnrétti, menntun og ýmsa innviði," segir á vef ráðsins.

„Það að fyrirtæki geti með hagkvæmum hætti sótt sér fjármagn, hvort sem það er í gegnum lánastofnanir, lífeyrissjóði, fjárfestingarfélög eða verðbréfamarkaði, spilar lykilhlutverk í fjárfestingargetu þeirra. Sú geta hefur í framhaldi meðal annars áhrif á samkeppnishæfni þeirra á alþjóðlegum mörkuðum, þar með talið áhuga erlendra fjárfesta og getu til að þróa nýjar lausnir. Í sameiningu stuðla allir þessir þættir að þróun hagsældar og lífskjara á Íslandi með því að skapa störf og auka framleiðni."