Portúgalska ríkið hefur aflað sér um 1 milljarð evra á markaði með útgáfu skuldabréfa. Portúgal réðst í útgáfu bréfanna vegna endurgreiðslu lána sem eru á gjalddaga í næstu viku. Kostnaður landsins við lántökuna var hár. Ávöxtunarkrafa bréfanna, sem eru til sex og tólf mánaða, er 5,1% og 5,9%. Í síðasta mánuði var krafan 3% og 4%. BBC greinir frá niðurstöðum útboðsins í dag.

Sérfræðingar sem rætt er við í frétt BBC segia að svo háir vextir séu ósjálfbærir fyrir ríki þar sem hagvöxtur er lítill sem enginn. Þá bendir Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, á að vextirnir eru hærri en Írland greiddi áður en þeir óskuðu eftir fjárhagsaðstoð frá björgunarsjóði ESB. Að mati Pestons bendir það til þess að Portúgal þurfi að óska eftir aðstoð eftir kosningar þar í landi í júní næstkomandi.

Stjórnvöld í Portúgal hafa alla tíð sagt að ekki sé þörf á aðstoð frá Evrópusambandinu. Hækkun á kröfu skuldabréfanna má rekja til lækkunar á lánshæfismati Portúgals nýlega, en Moody's lækkaði lánshæfiseinkunn landsins um einn flokk, úr A3 í Baa1.