Haraldur Johannessen, ritstjóri sagði á morgunfundi Viðskiptablaðsins að fjármagnskostnaður fyrirtækja, sem nú væri dýr myndi að lokum hafa áhrif á verðlagningu þeirra en erindi Haraldar sneri að stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Hann sagði að ekki mætti gleyma þeim mikla fjölda lítilla og meðalstóra fyrirtækja sem störfuðu hér á landi, aðeins lítill hluti þeirra fyrirtækja sem hér starfa gætu talist stór samkvæmt uppgjörum.

Haraldur sagði að síðustu ár hefðu mörg fyrirtæki valið lægri vexti með tilheyrandi gengisáhættu en um þessar mundir þyrftu mörg fyrirtæki að búa við íslensk lán sem bæru háu vexti.

„Nú eiga fyrirtæki oft ekki þetta val og sitja uppi með háa vexti,“ sagði Haraldur. „Fyrr eða síðar munu fyrirtæki þurfa að taka tillit til þess í verðlagningu.“ Hann sagði að þetta hefði að einhverju leyti þegar komið fram í verðlagi undanfarið.

Haraldur sagði að fyrirtækin hefðu máttu gera ráð fyrir miklum vaxtamun og því þolað veikingu krónunnar.

„Fyrirtæki hafa gert ráð fyrir vaxtamun á gengisvísitölu á nokkrum árum, en ekki nokkrum vikum,“ sagði Haraldur og vísaði þar í miklar sveiflur gengisvísitölunnar. Hann sagði bæði fyrirtæki og einstaklingar eiga það til að vanmeta gengisáhættu af erlendum lánum.

Hann sagði að þrátt fyrir aðstæður á mörkuðum um þessar mundir væri útlitið bjart og vísaði til að mynda til úttektar Viðskiptablaðsins á miðvikudag um viðhorf fjárfesta í Bandaríkjunum. Haraldur sagði að batinn á fjármálamörkuðum myndi koma erlendis frá.