Fjármagnstekjur Íslendinga hafa vaxið stórlega á undanförnum árum og á fyrstu sjö mánuðum ársins nema þær nærri 209 milljörðum króna. Það eru meiri fjármagnstekjur en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu á öllu árinu, að því er fram kemur í Fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins.

Ef fram heldur sem horfir, segir ennfremur í fréttabréfinu, verða fjármagnstekjur Íslendinga á árinu 300-400 milljarðar króna, en þær geta sveiflast töluvert. Verði það niðurstaðan mun ríkið fá í sinn hlut 30-40 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt. Hér er um að ræða nýjar tekjur fyrir samfélagið sem hafa gríðarleg áhrif, bæði á afkomu ríkissjóðs og hagkerfið í heild.

"Fjármálaráðuneytið birti nýverið greiðsluafkomu ríkissjóðs fyrir fyrstu sjö mánuði ársins og hefur fjármagnstekjuskatturinn skilað ríkinu tæplega 21 milljarði í tekjur á fyrstu sjö mánuðum ársins. Aukningin miðað við sama tímabil á síðasta ári er um 49%. Á fyrstu sjö mánuðum ársins nema fjármagnstekjur ríkisins 42% af tekjuskatti einstaklinga en árið 2005 var þetta hlutfall 26% ef miðað er við fyrstu sjö mánuðina.

Samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins námu gjöld ríkissjóðs til menntamála á fyrstu sjö mánuðum ársins 2007 tæpum 23 milljörðum króna og ef heldur fram sem horfir verður fjármagnstekjuskatturinn farinn að fjármagna öll útgjöld ríkisins til menntamála innan skamms og vel það.

Ljóst er að upptaka fjármagnstekjuskatts í núverandi mynd hefur tekist einstaklega vel en 10% fjármagnstekjuskattur var tekinn upp árið 1997 en fyrir upptöku hans voru tekjur ríkisins af fjármagnstekjum óverulegar. Skattlagningunni var í raun hagað þannig að það hindraði myndun fjármagnsteknanna en nú fá þær að verða til," segir í fréttabréfinu.