Hagstofa Íslands hefur birt talnaefni um fjármál hins opinbera fyrir fjórða ársfjórðung 2005. Bráðabirgðatölur fyrir ársfjórðunginn sýna að heildartekjur ríkissjóðs hafi verið 92,4 milljarðar á rekstrargrunni og tekjujöfnuður var jákvæður um 13 milljarða króna. Tekjur hafa aukist um 12,5% frá sama fjórðungi fyrra árs en gjöld um 8,8% og hefur afkoman því batnað nokkuð.

Tekjur sveitarfélaganna á fjórða ársfjóðungi eru áætlaðar 34 milljarðar króna, rekstrargjöld 32 milljarðar og rekstrarniðurstaðan er því jákvæð um 2 milljarða sem er betri niðurstaða en í fyrra. Fjárfesting sveitarfélaganna á fjórðungnum er talin vera meiri en afskriftir þeirra og tekjujöfnuður því neikvæður um 1,4 milljarða samanborið við 4,2 milljarða á sama tíma í fyrra.

Samtölur ríkis og sveitarfélaga fyrir árin 2004 og 2005 í heild sýna að heildartekjur ársins 2005 hafa aukist um 16,7% og tekjujöfnuður batnað verulega og er nú áætlaður 6,9% af tekjum en var á sama tíma í fyrra talin neikvæður um 0,5%. Salan á Símanum á þriðja ársfjórðungi telst ekki til rekstrartekna samkvæmt þjóðhagsreikningum og er því ekki meðtalin í heildartekjum ársins en Síminn var seldur fyrir 58,4 milljarða.