Árlega birtir endurskoðendafyrirtækið Deloitte ítarlega úttekt sína á fjármálahlið knattspyrnuheimsins. Á árinu 2010 voru birtar niðurstöður hennar vegna tímabilsins 2008/2009 þar sem áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar hefðu átt að koma fram í fyrsta sinn. Í áramótablaði Viðskiptablaðsins var rýnt í úttekt Deloitte.

Í úttekt Deloitte kemur skýrt fram að tekjubilið milli stærstu liða Evrópu og annarra er sífellt að aukast. Þannig þénuðu 20 stærstu knattspyrnufélög álfunnar um 25% af öllum tekjum evrópskrar knattspyrnu á tímabilinu 2008/2009.

Munurinn er mest sláandi á Spáni þar sem stærstu liðin í efstu deild þéna 25 sinnum meira en þau sem ná minnstu inn. Í Englandi  og Frakklandi er sá munur sexfaldur. Að mati Deloitte hafa stóru deildirnar fimm þó sýnt mikla þrautseigju gagnvart áhrifum kreppunnar en bilið milli tekna og kostnaðar hefur þrátt fyrir það minnkað.

Tjallinn sér á báti

Enska úrvalsdeildin hirti tæplega 80% af öllum tekjum sem knattspyrnan skilar til félagsliða þar í landi. Sala á sjónvarpsrétti skilar um helmingi þeirra tekna en tekjur sem skapast á leikdegi, meðal annars í gegnum miðasölu og sölu á varningi, drógust lítillega saman á milli ára. Síðan að úttekt Deloitte var gerð hafa nýir sjónvarpsréttarsamningar verið undirritaðir sem skila enn meiri tekjum til liðanna í efstu deild í Englandi.