Árlega birtir endurskoðendafyrirtækið Deloitte ítarlega úttekt sína á fjármálahlið knattspyrnuheimsins. Á árinu 2010 voru birtar niðurstöður hennar vegna tímabilsins 2008/2009 þar sem áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar hefðu átt að koma fram í fyrsta sinn. Vinsælasta íþróttagrein í heimi virðist þó vera nokkuð ónæm fyrir sveiflum.  Í áramótablaði Viðskiptablaðsins var rýnt í úttekt Deloitte.

Tekjur evrópska knattspyrnuheimsins voru 15,7 milljarðar evra, um 2.400 milljarðar króna, á tímabilinu 2008/2009 og fóru vaxandi þrátt fyrir almennan samdrátt í alþjóðlegu efnahagslífi. Þetta kemur fram í úttekt Deloitte á fjármálahlið evrópskrar knattspyrnu vegna tímabilsins 2008/2009.

Stóru deildirnar fimm (efstu deildir Englands, Frakklands, Ítalíu, Spánar og Þýskalands) juku tekjur sínar um 3% á tímabilinu og stóðu þær samtals í 7,9 milljörðum evra, eða í um 1.200 milljarða króna.  Helmingur allra tekna evrópskrar knattspyrnu er því tilkominn vegna þessara fimm deilda sem tókst öllum að auka tekjur sínar á tímabilinu.