Árlega birtir endurskoðendafyrirtækið Deloitte ítarlega úttekt sína á fjármálahlið knattspyrnuheimsins. Á árinu 2010 voru birtar niðurstöður hennar vegna tímabilsins 2008/2009 þar sem áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar hefðu átt að koma fram í fyrsta sinn.  Í áramótablaði Viðskiptablaðsins var rýnt í úttekt Deloitte.

Sú deild sem græðir langmest er enska úrvalsdeildin en hún jók tekjur sínar um tæpa níu milljarða króna í breskum pundum. Tekjur hennar drógust þó saman þegar þær voru mældar i evrum vegna veikingar breska pundsins á tímabilinu. Enska deildin þénaði samt sem áður 751 milljónir evra, 114 milljarða króna, meira en sú deild sem halaði inn næst mest, þýska Bundeslígan.

Þýska deildin er önnur tekjuhæsta knattspyrnudeild Evrópu og var sú deild sem bætti mest við sig á tímabilinu 2008/2009 þegar hún jók tekjur sínar um 10% frá tímabilinu á undan. Spænska deildin var í þriðja sæti yfir tekjur og jók þær um 4% á milli ára. Þar á eftir kom ítalska deildin (5% aukning á milli ára) og lestina á meðal þeirra stærstu rak sú franska sem náði þó í fyrsta sinn að hala inn meira en milljarði evra, um 152 milljörðum króna, í tekjur.