Árlega birtir endurskoðendafyrirtækið Deloitte ítarlega úttekt sína á fjármálahlið knattspyrnuheimsins. Á árinu 2010 voru birtar niðurstöður hennar vegna tímabilsins 2008/2009 þar sem áhrif alþjóðlegu efnahagskreppunnar hefðu átt að koma fram í fyrsta sinn.  Í áramótablaði Viðskiptablaðsins var rýnt í úttekt Deloitte.

Launakostnaður í Englandi hélt áfram að aukast á tímabilinu 2008/2009 og því ljóst að alþjóðakreppan beit lítið sem ekkert af launatékkum þeirra knattspyrnumanna sem þar spila. Alls voru greidd 1,8 milljarðar punda, um 327 milljarðar króna, í laun til þeirra sem sparka bolta hjá 92 stærstu félögum Englands.  Um 72% þeirra launa runnu í vasa leikmanna sem spila í ensku úrvaldsdeildinni en heildarlaunagreiðslur þeirra 20 liða sem eru í þeirri deild hafa aukist um 55% á þremur árum. Sá vöxtur er mun hraðari en tekjuvöxtur félaganna, sem er að mati Deloitte mikið áhyggjuefni.

Umboðsmenn taka stóran skerf

Efstu 92 félögin í Englandi eyddu samtals 784 milljónum punda, um 142 milljarða króna, í leikmannakaup á tímabilinu 2008/2009. Það var aukning upp á fimm milljónir punda frá tímabilinu á undan og því ljóst að kreppan hafði ekki bein áhrif á kaupmátt félaganna.

Ensku félögin virðast vera farin að versla mun meira innan eigin landamæra því andvirði kaupsamninga sem gerðir voru milli þarlendra liða jókst um 85% og stóð í 298 milljónum punda. Þá virðast umboðsmenn heldur ekki finna mikið fyrir harðri krumlu samdráttarins því þeir fengu 80 milljónir punda í sinn vasa vegna aðkomu þeirra að kaupsamningum á tímabilinu 2008/2009. Fimm stærstu félagslið landsins greiddu meira en helming upphæðarinnar sem endaði í vasa umboðsmannanna.

Manchester City (138 milljónir punda) og Tottenham Hotspur (119 milljónir punda) voru þau félag sem eyddu mest í nýja leikmenn, þó að vert sé að taka fram að Tottenham fékk um 72 milljónir punda til baka með sölu á leikmönnum.