Fáist leyfi eftirlitsaðila mun Byr hf. renna inn í Íslandsbanka áður en langt um líður og lýkur þá stuttri en merkilegri sögu þessa stærsta sparisjóðs landsins. Jón Finnbogason verður þá skráður í sögubækurnar sem síðasti forstjóri sjóðsins en hann tók við starfinu af Ragnari Z. Guðjónssyni í nóvember 2009. Fyrst um sinn var hann skipaður til bráðabirgða í leyfi Ragnars en var síðan fastráðinn í janúar 2010 þegar tilkynnt var um starfslok Ragnars. Jón hefur því þurft að stýra sjóðnum á erfiðum tímum en staða Byrs hefur verið erfið síðan fyrir bankahrun og eins og flestum er eflaust í fersku minni stóð til að sameina sjóðinn Glitni á haustdögum 2008. Af því varð þó ekki og í kjölfarið varð hann að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu.

Áður hjá Kaupþingi

Jón, sem er lögfræðingur að mennt og hefur málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, starfaði sem forstöðumaður lögfræðisviðs Byrs áður en hann leysti Ragnar af hólmi og tók hann við því starfi í janúar 2009, þ.e. um einu ári áður en hann var ráðinn forstjóri Byrs. Í millitíðinni skipti hann þó um stól innan sjóðsins þegar hann tók við starfi forstöðumanns á fjármálasviði.

Áður en hann kom til starfa hjá Byr hafði Jón starfað um langt skeið hjá Kaupþingi, m.a. sem sjóðsstjóri, en hann lét af störfum hjá bankanum í desember 2008, ekki löngu eftir að íslenska bankakerfið féll. Jón hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði frá árinu 1999 og hefur því um 12 ára reynslu af fjármálamarkaði. Hann hefur setið í stjórn og verið stjórnarformaður Teris hf. og Reiknistofu bankanna.

Aðalhvatamaður Fimleikasjóðs

Jón, sem er fimm barna faðir, var afreksmaður í fimleikum og hefur verið virkur í félagsstarfi fimleika í gegnum tíðina. Hann hefur verið formaður stjórnar Íþróttafélagsins Gerplu í Kópavogi frá árinu 2006 en Gerpla vann sem kunnugt er Evrópumeistaratitil í hópfimleikum á síðsta ári. Þá er hann þjálfari hjá félaginu og var einnig aðalhvatamaðurinn að stofnun Fimleikasjóðs Íslands, sjóðs sem styður fimleikamenn til keppni og æfinga, árið 1999.