VÍB eignastýringaþjónusta Íslandsbanka stóð í gær fyrir opnum fræðslufundi um fjármál Star Wars. Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri VÍB, hélt erindi á fundinum. Meðal þess sem rætt var um eru þær miklu tekjur sem vörumerkið hefur skilað höfundinum, George Lucas og ástæður Disney fyrir kaupum á Lucasfilm árið 2012. Nýjasta myndin í Star Wars myndaröðinni verður frumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum á morgun.

Á fundinum kom m.a. fram að heildartekjur af myndum, dóti, leikjum, myndbandsspólum, bókum og öðru tengdu Star Wars frá 1977 eru taldar vera um 3.760 milljarðar króna. 43% af þessum tekjum koma frá sölu leikfanga á meðan 19% koma frá sölu DVD og VHS mynda og um 15% frá miðasölu í kvikmyndahúsum.

Söluandvirði jafngildir fjárlögum íslenska ríkisins

Þar var m.a. rætt þegar Disney keypti Lucasfilm af George Lucas árið 2012 en kaupvirðið nam um 4 milljörðum bandaríkjadollara (533 makr.). Áætlað er að söluandvirði Star Wars efnis næsta árið verði um 666 milljarðar króna, rétt tæplega fjárlög íslenska ríkisins. Disney áformar m.a. að opna tvo skemmtigarða tengda Star Wars, en það mun kosta yfir 250 milljarða króna.

Hægt er að sjá fundinn í spilaranum hér að ofan.