Nýverið hlaut Frans Páll Sigurðsson, fjármála- og birgðastjóri GlaxoSmithKline á Íslandi, viðurkenningu alþjóðlegu GSK samstæðunnar fyrir vandaða birgðastjórn á árinu 2007. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GlaxoSmithKline á Íslandi.

Á hverju ári veitir GSK í Norður-Evrópu viðurkenningar fyrir ýmsa þætti birgðastjórnunar en öryggi, gæði og skilvirkni eru lykilatriði við vörustjórnun með lyf og bóluefni.  Frans þótti ná frábærum árangri við að tryggja stöðugt og gott aðgengi að lyfjum frá GSK á sínu starfssvæði.

GSK samstæðan notast við Manugistics vörustýringarkerfi, en með því er hægt að stýra ferli vöru frá undirbúningsstigi í framleiðslu til afhendingar í vöruhús hér á landi. Alls á GSK á Íslandi í beinum samskiptum við um 18 framleiðslustaði GSK um allan heim og berast lyfin og bóluefnin frá þeim milliliðalaust til landsins. Um er að ræða 220 vörunúmer sem seljast frá 5 einingum á ári upp í 30.000 einingar eða meira.

Hjörleifur Þórarinsson framkvæmdastjóri GSK á Íslandi segir viðurkenningu GSK samstæðunnar mjög ánægjulega. „Undanfarið hefur verið nokkur umræða hér á landi um birgðastýringu lyfja og um vöntun á lyfjum hjá dreifingaraðilum. Sú umræða endurspeglar hve vandasamt verkefnið er og því getum við verið stolt af okkar manni.“