Fjármálaeftirlit Bretlands, FSA, hefur hætt við að setja sérstakar reglur um hvernig bónusar skuli útfærðir í fjármálafyrritækjum. Þetta er gert af ótta við að slíkar reglur gætu dregið úr samkeppnishæfni landsins, að því er fram kemur í FT.

Reglurnar, sem kynntar verða í dag, innihalda eftir sem áður ákvæði sem skylda stjórnir og stjórnendur banka til að tengja launagreiðslur meira við áhættu. Í grein Hector Sants, forstjóra FSA, í FT í dag, segir að reglunum sé ætlað að tryggja að stjórnir hindri stjórnendur í að koma á launakerfi sem í raun skaði hagsmuni þeirra sem útvegi starfsmönnunum fjármagn.

Áformin sem fallið hefur verið frá snerust um að setja reglur um að tvo-þriðju bónusa ætti ekki að greiða út strax og að ávinningur hvers einstaklings ætti að vera tengdur heildarafkomu fyrirtækisins, en ekki aðeins árangri hans sjálfs eða deildar hans.

FSA er að sögn FT enn þeirrar skoðunar að þetta séu réttu viðmiðin, en þar sem Bandaríkin og Evrópusambandið hafi ekki farið þá leið að setja ákveðnar reglur um launagreiðslur, hafi FSA áhyggjur af að fjármálafyrirtæki myndu fara frá Bretlandi ef slíkar reglur yrðu settar þar.