Samkeppnisyfirvöld í Búlgaríu, ásamt fjármálaeftirliti og einkavæðingarnefnd landsins, hafa óskað eftir frekari upplýsingum um væntanleg kaup Björgólfs Thors Björgólfssonar á eignarhaldsfélaginu Viva Ventures, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Viva Ventures á 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu Bulgarian Telecommunications Compnay (BTC) og hefur félag í eigu Björgólfs Thors, Novator Telecom Bulgaria, samið um kauprétt á hlutum breska fjárfestingasjóðsins Advent International í Viva Ventures og eygir Björgólfur Thor því möguleika á því að ná yfirráðum í BTC. Vert er að taka fram, eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu, að Novator Telecom Bulgaria hefur ekki enn eignast Viva Ventures.

Viva Ventures var myndað til að halda utan um hlutinn í BTC, sem var keyptur í fyrra fyrir 230 milljónir evra, eða tæplega 18 milljarða króna, þegar fyrirtækið var einkavætt. Stjórnvöld í Búlgaríu seldu síðan 35% til almennra fjárfesta og er fyrirtækið skráð í kauphöllinni í Sofíu. Talsmaður Novator Telecom Bulgaria sagði í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins að það væri eðlilegt að samkeppnisyfirvöld óskuðu eftir upplýsingum um viðskiptin, enda hefði Novator átt viðræður við búlgörsk stjórnvöld um að fá leyfi til að kaupa Viva Ventures og þar með eignast 65% hlut í BTC.

Þegar BTC var einkavætt var samið um að Advent International, sem leiddi hóp þeirra fjárfesta sem keyptu hlutinn, myndi eiga hann óskiptan þangað til í júní árið 2007. Einnig voru skilyrði um það að félagið myndi eiga ráðandi hlut í BTC í fimm ár frá kaupdegi hlutarins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins á Novator Telecom Bulgaria nú í viðræðum um að þessum kvöðum verði aflétt.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Novator Telecom Bulgaria þurfi um 100 milljarða til að klára kaupin á Viva Ventures, en þá er einnig reiknað með endurfjármögnun fyrirtækisins sem leidd er af Citigroup og Landsbanka Íslands. Markaðsvirði BTC hefur hækkað verulega frá því að félagið var einkavætt og nemur nú 110 milljörðum króna, sem þýðir að virði hlutar Viva Ventures nemur nú 74 milljörðum króna og hefur hann hækkað um 57 milljarða. Ef af viðskiptunum verður er líklegt að smærri hluthöfum í BTC verði gert tilboð í hluti sína til að framfylgja reglum kauphallarinnar í Sofíu.