Fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum, The Securities and Exchange Commission (SEC), hefur tekið ákvörðun um að höfða ekki mál gegn matfyrirtækinu Moody´s vegna matsskýrslna sem evrópskt útibú fyrirtækisins gerði. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Robert Khuzami hjá SEC sem send var út í gærkvöldi. SEC telur sig ekki hafa valdheimildir til að til að ákæra erlend útibú Moody´s þegar meint brot áttu sér stað í janúar 2007. Eftirlitið taldi Moody´s ekki hafa upplýst um matsskýrslur útibús þess í Evrópu sem hafi verið brot á reglum. Samkvæmt skýrslu SEC, fann greinandi hjá Moody´s villu í matskerfi útibúsins, sem gerði það að verkum að kerfið vanmat mögulega áhættu tiltekinna skuldabréfa. Þau fengu því hærri einkunn en eðlilegt var. Matsnefnd Moody´s var upplýst um þetta en ákvað að breyta ekki einkuninni af ótta við að orðspor fyrirtækisins myndi skaðast. SEC varaði jafnframt matsfyrirtækin við því að ef þau gæfu út villandi matskýrslur gætu þau átt von á ákærum. Gerir eftirlitið þetta á grundvelli nýrra laga (e. The financial overhaul law) sem minnka áhrif stóru matsfyrirtækjanna þriggja, Moody's, Standard & Poor's og Fitch Ratings. Lögin veita eftirlitinu valdheimildir og lögsögu í málum vegna villandi matskýrslna erlendra útibúa matsfyrirtækja, sem áhrif geta haft innan Bandaríkjanna.