Að sögn Víglundar Þorsteinssonar, stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hefur forstjóri sjóðsins fulla heimild til að kaupa og selja bréf í samþykktum félögum. Sú heimild gerir honum kleift að selja hlut sjóðsins í Straumi Burðarás fjárfestingabanka ehf. hvenær sem henta þykir.

"Hann getur því selt hlutinn ef honum berast góð boð hvenær sem er. Forstjóri sjóðsins hefur engar aðrar skyldur gagnvart stjórninni en að greina henni frá ef hann þarf að flagga vegna viðskipta sinna í Kauphöllinni," sagði Víglundur.

Sú ákvörðun að setja hlut lífeyrissjóðsins í Straumi Burðarás fjárfestinagbanka í sölu var að sögn Víglundar tekin af forstjóra sjóðsins að höfðu samráði við formann og varaformann stjórnar.

- Nú sjá menn væntanlega fram á að vera eigendur að hlutnum þegar kemur að hluthafafundinum 19. júlí?

"Þess vegna ákváðu menn að gera athugun á því hvort menn vildu draga sig saman og bera fram sjálfstæðan og óháðan stjórnarmann í Straumi Burðarás, sem fyllsta ástæða er til að gera."

- Hafið þið fengið einhver viðbrögð við því?

"Menn eru rétt að byrja að skoða þessi mál. Það tekur lengri tíma en svo að það gerist á hálfum sólarhring."

- En þið munuð hafa frumkvæði að því að leita eftir stuðningi við að ná inn einum manni í stjórn?

"Við munum hafa frumkvæði að því að kanna meðal ýmisa hluthafa hvort að menn vilji standa sameiginlega að því að bjóða fram sjálfstæðan stjórnarmann. Ef það yrði niðurstaðan hæfist athugun á því hvaða einstaklingur yrði til þess fenginn. Það yrði einhver góður, grandvar einstaklingur."

- Hver var tilurð þess að þið ákváðu að fara út í að setja hlut ykkar til sölu?

"Við ákváðum bara að kanna þann möguleika að stíga út úr félaginu, út af þessum deilum. Þá ákváðum við að láta á það reyna að selja hlutinn í einu lagi þannig að við yrðum ekki ásakaðir um það, ef annar hvor deiluaðila hefði keypt, að við hefðum hyglað einum umfram hinn. Það er ekkert flókið. Þetta er bara heiðarleg og opin aðgerð. Síðan birtust fréttatilkynningar Björgólfs Thors á föstudaginn sem vöktu undrun okkar."

- Ykkur fannst það ekki í samræmi við það sem þið töldu?

"Þar voru upplýsingar um samtöl hans við Hannes Smárason og einhver samráð."

- Það var staðfesting á því sem lá að baki ykkar ákvörðun um að leita kauptilboða. Þið töldu ykkur vita að þessir aðilar væru að ræða saman?

"Nei, ekki á því stig."

- En staðfestingu á grun ykkar?

"Allavega sáum við að þarna voru einhver samtöl komin í gang sem væri ekkert óeðlilegt að allir hluthafar væru upplýstir um. Það er ekkert flókið og í framhaldi af því skrifaði ég Fjármálaeftirlitinu og benti þeim á þessar fréttatilkynningar og taldi rétt að þeir athuguðu málið. Þetta er almenningshlutafélag á Íslandi og ef að aðilar sem fara með yfir 60% hlut í því félagi eru komnir í einhver samtöl og samráð um framtíð félagsins -- eins og kemur beint fram í fréttatilkynningunni -- þá á Fjármálaleftirlitið að skoða það. Það er okkar mat."