Fjármálaeftirlitið fær nýtt hlutverk í aðgerðum gegn peningaþvætti samkvæmt frumvarpi sem viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með því að einstaklingar eða lögaðilar sem í atvinnuskyni stunda gjaldeyrisviðskipti eða yfirfærslu peninga og annarra verðmæta, fari að ákvæðum laganna um aðgerðir gegn peningaþvætti, reglugerðum og reglum sem settar eru samkvæmt þeim.

Í skýringum frumvarpsins kemur enn fremur fram að samkvæmt gildandi löggjöf skuli afla leyfis fyrir starfrækslu gjaldeyrisskiptastöðva hjá Seðlabanka Íslands.

„Eftir því sem næst verður komist þá er peninga- og verðmætasendingarþjónusta á hinn bóginn ekki starfrækt hér á landi í dag, utan starfsleyfisskyldra fjármálafyrirtækja, sem lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins," segir í skýringum frumvarpsins.

„Heppilegt þykir að gera sömu kröfur til peninga- og verðmætasendingarþjónustu og gerðar eru til gjaldeyrisskiptastöðva að því er skráningarskyldu hjá opinberum eftirlitsaðila varðar, enda er um eðlislíka starfsemi að ræða. Skráningu og eftirliti með starfseminni þykir best fyrir komið hjá Fjármálaeftirlitinu en stofnunin hefur ekki sinnt þessu verkefni áður. Er Fjármálaeftirlitinu ætlað að móta ákveðið verklag í tengslum við hið nýja hlutverk.“