Stjórn Fjármálaeftirlitsins ákvað þann 20. desember síðastliðinn að sekta Existu um 15 milljónir króna vegna innherjaviðskipta sem ekki voru tilkynnt til Kauphallar. Segir í tilkynningu FME að málið var tekið til athugunar meðal annars eftir ábendingu frá Kauphöllinni.

Fjármálaeftirlitið telur að upplýsingar um 8,4 milljarða króna seljendalán sem Exista veitti félaginu ELL 182 ehf. teljist til innherjaupplýsinga. Lánið var veitt í tengslum við sölu Exista á tæplega 40% hlut í Bakkavör Group. Félagið er í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssonar.

Segir að um hafi verið að ræða verulega fjármuni sem lánaðir voru gegn veði í hinum seldu hlutabréfum, í stað þess að vera greiddir inn í félagið við söluna. „Í ljósi þess að félagið var í greiðsluvandræðum á þessu tímabili telur Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar vera þess eðlis að þær varði greiðsluhæfi og fjárhag félagsins og séu þar með líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninga félagsins,“ segir í áliti FME.

„Þess skal getið að fyrrgreind brot áttu sér stað í tíð fyrrverandi eigenda og stjórnenda Exista hf., en nýir eigendur hafa tekið yfir félagið og ný stjórn verið kjörin,“ segir en niðurstöðu FME má lesa hér .