Kauphöll Íslands hefur lokið rannsókn sinni á hvort Landsbankinn hafi búið yfir meiri upplýsingum en aðrir fjárfestar 19. júní,  daginn sem tilkynnt var um umfangsmiklar breytingar á Íbúðalánasjóði.

Hefur hún vísað málinu til Fjármálaeftirlitsins. Sama dag – áður en tilkynnt var um breytingarnar – seldi Landsbankinn mikið af íbúðabréfum, en  þau lækkuðu í kjölfar breytinganna.

„Við erum ekki að fullyrða um brotavilja,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að gögn Kauphallarinnar gefi til kynna að fjárfestar hafi haft mismunandi upplýsingar  undir höndum þennan dag.

„Þetta þarfnast frekari skoðunar og með þeim aðferðum sem við höfum einfaldlega ekki tileinkað okkur og er algjörlega í verkahring Fjármálaeftirlitsins,“ segir hann.

Samstarf FME og Kauphallar

Þórður segir þetta tilfelli snúa að lögum en ekki brot á reglum Kauphallarinnar. Auk þess er Kauphöllin með samstarfssamning við Fjármálaeftirlitið. Kauphöllin skoðar sín viðskiptagögn og dregur af þeim ályktanir.

„Ef við teljum að það sé hugsanlega þörf fyrir því að skoða málin frekar þá vísum við því til Fjármálaeftirlits sem sér um frekari skoðun á málinu,“ segir hann.

„Enda væri ekkert vit í því ef báðir aðilar væru í einhverjum dýpri athugunum.“

„Fjármálaeftirlitinu barst í dag erindi frá Kauphöllinni. Erindið verður metið og skoðað á faglegan hátt, eins og önnur erindi sem hingað berast. Meðan rannsókn stendur yfir er ekkert frekar um málið að segja,“ segir Íris Björk Hreinsdóttir, lögmaður Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Bankastjóri Landsbankans vissi af breytingum á ÍLS

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans og stjórnarformaður Samtaka fjármálafyrirtækja, bað framkvæmdastjóra samtakana skömmu fyrir lok markaða að senda tölvupóst á stjórnarmenn þar sem hann tíundar fyrirhugaðar breytingar á Íbúðalánasjóði.

Landsbankinn hefur gefið út yfirlýsingu þar sem hann segir ekkert athugavert við viðskiptin.