Fjármálaeftirlitið (FME) hefur synjað umsókn Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) um að eignast virkan eignarhlut í Icebank.

Þetta kemur fram á vef SPM.

SPM hafði undirritað samning við Byr, Spron og Netbankann um kaup á 3% eignarhlut í Icebank en við kaupin fór eignarhlutur yfir 9,99 prósent. Var samningurinn skilyrtur því að leyfi fengist hjá FME fyrir því að SPM fengi heimild til að fara með virkan eignarhlut í Icebank.

Á vef sparisjóðsins kemur fram að FME hafnaði umsókninni á þeim forsendum að það hefði of mikil áhrif á eiginfjárhlutfall sjóðsins að eignast umræddan hlut í Icebank ásamt því að með breyttri stefnu Icebank væri hætta á hagsmunaárekstrum meiri en áður.

Þá kemur fram að búið var að færa tap vegna samningsins í áramótauppgjör Sparisjóðs Mýrasýslu en þar sem kaupin munu ekki eiga sér stað er ljóst að niðurstaða FME mun hafa jákvæð áhrif á rekstur sjóðsins á þessu ári.