Þann 16. júní síðastliðinn sendi samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila bréf til Höllu Sigrúnar Hjartardóttur, stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins (FME), þar sem nefndin lýsti yfir mikilli óánægju og vonbrigðum með þær forsendur sem FME leggur upp með í rekstraráætlun sinni fyrir árið 2015. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

Segir í bréfinu að það valdi nefndinni verulegum vonbrigðum að FME sjái ekki fyrir sér meiri fækkun starfsmanna á komandi árum en áætlanir geri ráð fyrir. Sé litið til rekstraráætlana FME til ársins 2018 hyggist stofnunin þvert á móti leitast við að festa inni til framtíðar þann kostnaðarauka sem eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði hafi tekið á sig í kjölfar bankahrunsins 2008.

Starfsmenn FME eru í dag 120 talsins en voru 43 í árslok 2007. Nefndin bendir á í bréfi sínu að frá árinu 2009 hafi 17 starfsmenn sinnt rannsóknum fallinna fjármálafyrirtækja en þeim sé nú að mestu lokið. Telur nefndin því umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að fækka hið minnsta um þann fjölda starfsmanna.