Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöðu athugunar á innra eftirlitskerfi Landsbankans í tengslum við stórar áhættuskuldbindingar, en eftirlitið hóf athugunina í október 2014. Markmið athugunar FME var að kanna hvort að framkvæmd bankans við skráningu tengdra aðila, utanumhald og eftirlit með þeim væri í samræmi við reglur um takmarkanir á stórum áhættum, stórar áhættuskuldbindingar og mat á tengslum aðila vegna þeirra reglna.

Uppfyllti ekki reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við að framkvæmd eftirfylgni og eftirlit Landsbankans með hópum tengdra viðskiptavina væri ekki í föstum skorðum og að vinnulag bankans væri ekki samræmi við skjalfest verklag bankans.

Eftirlitið taldi að ábyrgð vegna skráningu á hópi tengdra viðskiptavina væri óljós þar sem tölvukerfið notaðist ekki við fullnægjandi heildarmynd yfir hóp tengdra viðskiptavina, skortur væri á skráningum á tengingum og breytingar á fyrri skráningum væru rekjanlegar. Eftirlitið taldi einnig að bankinn hefði ekki lagt fullnægjandi áherslu á fjárhagsleg tengsl við skráningu hópa tengdra viðskiptavina.

Fjármálaeftirlitið taldi því að innra eftirlitskerfi bankans vegna stórra áhættuskuldbindinga uppfyllti ekki reglur um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

Upplýsingar ekki uppfærðar og einn skráður vitlaust

Fjármálaeftirlitið gerði einnig athugasemd við að Landsbankinn hefði ekki uppfært upplýsingar um tiltekinn hóp tengdra viðskiptavina í skýrslu bankans um stórar áhættuskuldbindingar til eftirlitsins. Einnig var gert athugasemd við að einn viðskiptavinur hefði ekki verið rétt tengdur í kerfum bankans.