Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, beindi fyrirspurn til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og spurði hvort fjármálaráðherra ætli að sætta sig við að Landsbankinn setji á sérstakt hvatakerfi. Vigdís vísaði í ræðu Gunnars Helga Hálfdanarsonar, formanns bankaráðs Landsbankans, á aðalfundi bankans 28. apríl síðastliðinn. Þar lýsti Gunnar Helgi yfir áhyggjum af samkeppnishæfni bankans og benti á að laun bankastjóra Landsbankans væru um þriðjungur af launum bankastjóra hinna bankanna.

Steingrímur sagði að Landsbankanum ber að gæta hófsemi samkvæmt eigendastefnu ríkisins. Af nýlegum atburðum standi til að endurskoða og hnykkja á orðalagi eigendastefnunnar. Hann sagði það ekki ætlunina að fjármálastofnanir gangi undan með fordæmi, hvað þá að launastefna sem var við lýði fyrir hrun innan bankanna verði tekin upp að nýju.

Þá sé Fjármálaeftirlitið að setja reglur um kaupaukakerfi sem eiga að koma í veg fyrir að hlutirnir endurtaki sig.

Steingrímur sagði að það væri þó ekki við Landsbankann að sakast, heldur hinna bankanna sem telja sig hafa svigrúm til að greiða launin sem eru við lýði.