Hæstiréttur dæmdi í gær að Fjármálaeftirlitinu væri ekki skylt að afhenda gögn um Landsbanka Íslands hf., en hópur tryggingafélaga krafist þess að fá aðgang að gögnunum.

Ástæða málsins var sú að Landsbankinn hafði svokallaða stjórnendatryggingu hjá tryggingafélögunum. Í tengslum við umsókn um tryggingar sendi bankinn umsókn ásamt fylgiskjölum þar sem fram komu upplýsingar um fjárhagsstöðu bankans. Fjármálastjóri bankans hélt því fram, f.h. bankans að upplýsingarnar væru sannar og réttar.

Eftir fall bankans höfðaði bankinn þrjú dómsmál gegn fyrrum stjórnendum bankans til heimtu skaðabóta fyrir það tjón sem bankinn taldi sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi stjórnendanna í störfum þeirra. Í þeim málum var m.a. krafist greiðslu úr fyrrnendri stjórnendatryggingu.

Tryggginafélögin höfnuðu ábyrgð og sögðu að við umsókn hennar hefði verið brotið gegn upplýsingaskyldu bankans og að þau hafi ekki verið upplýst um misferli og margvísleg brot af hálfu bankans og starfsmanna hans en öll slík atriði hefðu skipt félögin máli við mat þeirra á áhættu í tengslum við ákvörðun um veitingu tryggingarinnar. Tryggingafélögin beinlínis héldu því fram að bankinn hafi veitt rangar upplýsingar um stöðu og rekstur bankans. Samhliða því var krafist gagna frá Landsbankanum og Fjármálaeftirlitinu til að félögin gætu sannað fullyrðingar sínar um að rangar upplýsingar hefðu verið veittar við umsóknina.

Í málinu vógust á ólík sjónarmið sem eiga rætur að rekja til tveggja andstæðra meginreglna annars vegar meginreglu upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og hins vegar meginreglna um þagnarskyldu og bankaleynd.

Niðurstaða Hæstaréttar var á þá leið að Fjármálaeftirlitinu var ekki heimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar.