Fyrirtæki sem selja vörur til útlanda eru talsvert líklegri til að vilja fjölga starfsmönnum heldur en fyrirtæki sem selja ekki vörur til útlanda. Fyrirtæki á landsbyggðinni eru líklegri en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu til að vilja breyta starfsmannafjölda sínum, bæði til hækkunar og lækkunar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í hagvísum Seðlabanka Íslands sem komu út í síðustu viku. Tölurnar byggjast á könnun sem framkvæmd var í maí síðastliðnum.

Alls vildu rúmlega 20% allra fyrirtækja fjölga starfsmönnum á næstu sex mánuðum og rúmlega 15% sögðust vilja fækka starfsmönnum á tímabilinu. Fyrirtæki í byggingastarfsemi og veituþjónustu eru líklegust til að vilja fjölga starfsmönnum á næstu 6 mánuðum. Tæplega 60% slíkra fyrirtækja sögðust vilja fjölga starfsmönnum á tímabilinu og er það umtalsverð aukning síðan í mars.

Fjármálafyrirtæki líklegust til að vilja fækka starfsfólki

Þeim fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem vilja fjölga starfsmönnum á næstu 6 mánuðum fækkaði hins vegar frá því í mars og var hlutfallið tæp 30% í maí. Leiða má líkur að því að hér sé um árstíðasveiflu að ræða.

Fyrirtæki í fjármála- og tryggingastarfsemi voru líklegust til að vilja fækka starfsmönnum á næstu sex mánuðum. 30% fyrirtækja í þeim geira vildu fækka starfsmönnum. Rúmlega fjórðungur fyrirtækja í sjávarútvegi sögðust vilja fækka starfsmönnum.