Sameiginlegur rekstrarhagnaður fjármálafyrirtækja á Íslandi árið 2011, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja, var um 47,5 milljarðar króna. Fyrir utan óreglulega liði nam hagnaðurinn 29,7 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins (FME) þar sem birtar eru heildarniðurstöður ársreikninga fjármálafyrirtækja fyrir árið 2011. Samantektin sýnir nokkrar meginstærðir s.s. heildareignir, eigið fé, eiginfjárhlutföll, hagnað, hagnað af reglulegum rekstri fyrir skatta, útlán til viðskiptavina og innlán lánastofnana.

Í árslok 2011 voru starfandi 4 viðskiptabankar, 10 sparisjóðir, 8 lánafyrirtæki, 13 verðbréfafyrirtæki, 2 verðbréfamiðlanir og 9 rekstrarfélög verðbréfasjóða samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Eignir umræddra fyrirtækja voru í árslok um 4.000 milljarðar króna og bókfært eigið fé um 491,5 milljarða króna. Þá námu útlán til viðskiptavina um 2.700 milljörðum króna en innlán tæplega 1.500 milljörðum króna í árslok 2011. Eiginfjárhlutfallið var að meðaltali um 18,5%.

Meðalfjöldi starfsmanna hjá fjármálafyrirtækjum var um 4.300 á síðasta ári. Þar af störfuðu tæplega 1.300 manns hjá Landsbankanum og um 1.000 manns hjá Íslandsbanka.

Sjá samantektina í heild sinni HÉR (pdf skjal).