Fótboltamót fjármálafyrirtækja
Fótboltamót fjármálafyrirtækja

Lið Stefnis í hörðum leik á móti karlaliði Íslandsbanka

„Þetta mót er orðið að eins konar uppskeruhátíð fjármálageirans,“ segir Hjörvar Maronsson, ráðgjafi hjá Íslenskum verðbréfum. Hann átti sæti í undirbúningsnefnd árlegs fótboltamóts fjármálafyrirtækja sem fram fór í knattspyrnuhúsinu Boganum á Akureyri um helgina. Þetta var 13. árið í röð sem mótið var haldið en það fer fram síðasta laugardag í janúar.

Í karlaflokki fékk lið H.F. Verðbréfa farandbikar fyrir fyrsta sætið á mótinu en kvennalið Íslandsbanka fékk bikar til eignar þar sem þetta lið bankans vann mótið þriðja árið í röð.

Íslensk verðbréf hefur haldið mótið frá upphafi.

Slík er eftirvæntingin orðin í aðdranda mótsins að byrjað var að bóka þátttöku á það síðasta haust. Á endanum voru 32 lið í karla- og kvennaflokkum skráð til leiks og nokkur komin á biðlista. Nokkur lið féllu úr skaftinu þegar leið nær móti og urðu þau 27 þegar upp var staðið.

Öðruvísi knattspyrnumót

Keppnin er með nokkuð öðru sniði en hefðbundnir knattspyrnuleikir. Um tíu eru í hverju liði, fjórir eru inni á vellinum í einu ásamt markmanni og sitja hinir á varamannabekknum. Þá eru keppnisvellirnir smærri en á venjulegum leik. Heilum velli er skipt upp í fjóra hluta og keppa tvo lið á hverri sneið.

Hjörvar segir ástæðu þessa þá að keppendur séu í misjöfnu formi, margir séu í mjög góðu formi á meðan aðrir séu aðeins fjær toppstandi. „En það er nokkuð hár standard á mótinu enda margir landsþekktir knattspyrnumenn sem vinna hjá bönkunum,“ bendir Hjörvar á.

Hjörvar telur að um 300 manns hafi verið í knattspyrnuhúsinu á meðan mótinu stóð á laugardag, þar af hafi keppendur verið rúmlega 200 talsins.

Að móti loknu komu allir þátttakendur á mótinu saman í Sjallanum og skemmtu sér fram eftir kvöldi.

Fótboltamót fjármálafyrirtækja
Fótboltamót fjármálafyrirtækja

Sigurlið kvennaliðs Íslandsbanka við það að skora í mark Sjóvár

Fótboltamót fjármálafyrirtækja
Fótboltamót fjármálafyrirtækja

Átök voru á vellinum þegar sigurlið H.F. Verðbréfa mætti Stefnismönnum