Lækkun varð á Wall Street í dag, eftir að mesta hækkun í tæp 70 ár varð í gær. Lækkaðar tekjuspár félaga ollu lækkuninni í dag og skyggðu á björgunaraðgerðir til handa fjármálastofnunum.

PepsiCo lækkaði um 12% eftir að hafa lækkað afkomuspá sína. Microsoft og Intel lækkuðu um meira en 5% eftir að greiningaraðilar sögðu eftirspurn eftir tölvum vera að dragast saman.

Bréf fjármálafyrirtækja héldu hins vegar áfram að hækka en bréf Morgan Stanley, Citigroup og Merrill Lynch hækkuðu um meira en 18% í dag.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 3,5% í dag. Dow Jones lækkaði um 0,8% og Standard & Poor´s lækkaði um 0,5%.

Olíuverð lækkaði um 2,3%, þ.e. 1,9 dali, og kostar olíutunnan nú 79,3 Bandaríkjadali.