Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunn eru tvær meginástæður fyrir lækkunum dagsins.

Annars vegar halda fjármálafyrirtæki að lækka í ljósi þess að fjárfestar óttast enn að þau félög komi til með að tapa frekara fjármagni en hins vegar heldur hrávöruverð áfram að lækka sem lækkar afkomu hrávöruframleiðanda.

FTSE 300 vísitalan lækkaði um 1,3% en rétt er að geta þess að aðeins var opið hálfan dag í Lundúnum í dag vegna frídags þar í landi.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins í dag. Til að mynda lækkaði Royal Bank of Scotland um 6,9%, Deutsche Bank um 6,5%, Commerzbank unm 6,8% og UniCredit um 8% svo dæmi séu tekin.

Þá lækkuðu olíu- og orkufyrirtæki einnig í dag. Þannig lækkuðu félög á borð við Shell, BG Group, Tullow Oil, Repsol, Total og BP um 1% - 2,5%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,1%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 1,2% og í Sviss lækkaði SMI um 1%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,5%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,1% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,9%.