Verulegur vafi er á því hvort útreikningar fjármálafyrirtækja vegna leiðréttingu gengistryggðra lána standast. Ætla má að fjármálafyrirtækin ofmeti eftirstöðvar lánanna um 10-30% að meðaltali fyrir lán tekin á árunum 2005 til 2007, þó svo ofmat einstakra lánasamninga geti verið mun hærra.

Þetta segir Sturla Jónsson, endurskoðandi hjá Nordik Finance, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir að á nýrri lánum sé ofmatið lægra.

Tvær leiðir

Sturla segir að tvær leiðir hafi jafnan verið nefndar við endurútreikning lánanna. Sú fyrri felst í að færa ofgreiðslur eða vangreiðslur til hækkunar eða lækkunar á höfuðstól lánsins sem hefur þannig áhrif á endurútreikning gjalddagans næst á eftir.

Síðari aðferðin felst í að færa mismun greiðslunnar sem var innt af hendi og greiðslu miðað við vexti seðlabankans á sérstakan veltureikning. Hann er síðan vaxtareiknaður til dagsins í dag.

Sturla segir að síðarnefnda aðferðin sé einfaldari og jafnframt sú aðferð sem hafi verið notuð af þeim fjármálafyrirtækjum sem birt hafa útreikninga. Það eru SP fjármögnun og Íslandsbanki. Framsetning félaganna er þó mismunandi.

Lögfræðilegt álitaefni

„Báðar framangreindar aðferðir hafa í för með sér vaxtareikning á bæði vangreiðslur og ofgreiðslur á hinum endurreiknuðu samningum. Í endurreiknuðum eftirstöðvum lána myndast svo nær undantekningalaust vaxtakrafa á skuldara vegna vangreiðslna. Er heimilt að krefja skuldara um vexti á vangreiðslur af þessum toga,“ spyr Sturla í greininni.

Hann segir það lögfræðilegt álitamál. Ekki sé um að ræða vangreiðslu í hefðbundnum skilningi þess orðs, greiðsla var sannanlega greidd eftir fyrirmælum á sínum tíma.

Stór hluti af láni

Vaxtakrafa sem innifalin er í endurútreikningi fjármálafyrirtækjanna getur numið nokkuð stórum hluta af eftirstöðvum lána, að sögn Sturlu. Samkvæmt útreikningum hans ætti umrædd reikningsaðferð að leiða til þess að íbúðalán tekið í upphafi árs 2006 sé ofmetið um 12% ef vaxtakrafan á ekki rétt á sér.

Hann segir að hlutfallslega sé ofmatið enn meira á bílalánum.

Sturla segir að það sé vonandi að í frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um gengistryggð lán verði tilgreint ýtarlega hvernig endurútreikningar eigi að fara fram.