Eftir lokun markaða í dag gaf Seðlabanki Íslands út fyrsta sérrit sitt um fjármálastöðugleika, en frá árinu 2000 hefur úttekt bankans á fjármálastöðugleika verið birt á sex mánaða fresti sem kafli í Peningamálum. Í inngangi úttektarinnar segir að tilgangur hennar sé að stuðla að upplýstri umræðu, efla áhættustýringu og skýra hvernig bankinn vinnur að lögbundnum viðfangsefnum sínum á þessu sviði. Þá segir að stöðugleiki fjármálakerfisins sé í almanna þágu, líkt og verðstöðugleiki. Með úttektinni stuðli Seðlabankinn að því að þessi almannagæði séu tryggð segir Greiningardeild Landsbankans.

Niðurstaða greiningar Seðlabankans er að íslenska fjármálakerfið sé í meginatriðum traust, þrátt fyrir að það sé á mikilli siglingu og verði að glíma við ójafnvægi í þjóðarbúskap næstu árin. Það sé traust í þeim skilningi að geta staðist áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

Byggt á Vegvísi greiningardeildar Landsbankans.