Bankasýsla ríkisins hefur það hlutverk að halda á hlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sparisjóðum þar á meðal. Nýlega gaf Bankasýslan út skýrslu þar sem fram kom að töluverð hagræðing þyrfti að eiga sér stað í fjármálakerfinu og það væri of stórt.

Til að mynda væru enn jafnmargir bankastarfsmenn í hlutfalli við landsframleiðslu og voru hér á landi árið 2007, þegar allt var í blóma.

Endurreisn sparisjóðakerfisins, með ríkið sem langstærsta bakhjarl, er því í nokkurri mótsögn við það sem fram kemur í skýrslunni um stærð fjármálakerfisins. Kerfið ætti ekki að vera að stækka heldur þvert á móti að minnka.

Ástæða þess að sparisjóðakerfið er endurreist er öðru fremur sú að Seðlabankinn og þar með ríkið vill reyna að freista þess að fá sem mest upp í kröfur á hina veikburða sparisjóði. Eftir fjárhagslega endurskipulagningu á sjóðunum er hæpið að kalla þá sparisjóði í sama skilningi og áður. Þar sem sparisjóðir hafa einkennst af því að stofnfjáreigendur hafa allir verið á starfssvæði sjóðanna, yfirleitt heimamenn, og sjóðirnir öðru fremur einbeitt sér að því að styðja við uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja í heimabyggð.

Endurskipulagning sjóðanna er ekki sársaukalaus. Stofnfé hafði í mörgum tilvikum verið aukið um milljarða króna með lánum sem stofnfjáreigendur tóku. Þau hafa hækkað með hruninu en stofnféð er verðlaust.

Ekki hefur enn verið leyst úr ágreiningi stofnfjáreigenda í Byr sem tóku lán hjá Glitni. Íslandsbanki heldur nú á þeim lánum en nafnverð þeirra er um 10 milljarðar króna. Lántakendur halda því fram að bréfin ein hafi verið að veði en bankinn hefur litið svo á að frekari veð séu fyrir lánunum. Úr þessari deilu verður leyst fyrir dómstólum.

Sambærileg mál eru víða um land, m.a. í Húnaþingi. Þar sem rúmlega fjórðungur íbúa skuldar samtals tæplega tvo milljarða vegna stofnfjárkaupa.