Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að fjármálakerfið á Íslandi sé enn of stórt miðað við efnahagsumsvif hér á landi. Þetta kom fram á kynningarfundi vegna stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar í morgun. Már sagði að enn væri þörf á hagræðingu á markaðslegum forsendum, í gegnum regluverkið og með íhlutun stjórnvalda. Síðasta atriði hafi átt við þegar ákvörðun var tekin um sameiningu SpKef og Landsbankans.

„Þetta skref var í rétt átt hvað það varðar," sagði Már. Hins vegar þyrfti að skoða margt annað til að fjármálakerfið yrði sjálfbært. Einnig yrði að skoða fjármögnun bankanna með hliðsjón af gjaldeyrishöftum því fjármálakerfið þyrfti líka að vera sjálfbært utan hafta.

Spurningu sem beint var að Má snéri að hvort fjármálakerfið íslenska væri orðið sjálfbært. Már sagði að von væri á fjármálastöðugleikaskýrslu í maí þar sem gerð væri frekari grein fyrir þessu.