Fjármálakreppa er ekki yfirvofandi á Íslandi en það er áhyggjuefni að hræðsluáróður geti orðið veruleika (e.self-fulfilling prophecy), segir í skýrslu hagfræðinganna Frederic Mishkin og Tryggva Þórs Herbertssonar, sem saman unnu skýrslu um íslenskt efnahagslíf fyrir Viðskiptaráð Íslands.

Niðurstöður skýrslunnar voru tilkynntar á fundi í New York í dag að viðstöddum hagsmunaðilum og erlendum greiningaraðilum og blaðamönnum. Mishkin er einn virtasti hagfræðingur Bandaríkjanna, og hefur meðal annars verið orðaður við stöðu aðstoðarseðlabankastjóra Bandaríkjanna, og Tryggvi Þór er einn þekktasti hagfræðingur Íslands.

Mishkin og Tryggvi Þór benda á að þau atriði sem einkennt hafa fjármálakreppur séu ekki til staðar á Íslandi. Í skýrslunni segir að ástandið á íslenskum fjármálamarkaði sé ekki það sama og einkennt hefur ríki sem í hefur orðið fjármálakreppa, og að ekki sé hægt að bera Ísland saman við nýmarkaðsríki.

Bent er á að eftirlitsstofnanir séu virkar, staða ríkissjóðs sé sterk, skuldir ríkisins hóflegar og að hagkerfið hafi aðlagað sig vel auknu frjálsræði á fjármálamarkaði. Í skýrslunni segir að nettó skuldir ríkissjóðs séu undir 10% af landsframleiðslu og eignir lífeyrissjóða séu 120% meiri en landsframleiðsla.

Einnig segir í skýrslunni að viðskiptahalli sé mikill nú, en að mikill viðskiptahalli einn og sér muni ekki leiða til fjármálakreppu. En bent er á að smæð íslenska hagkerfisins leiði til þess að það er óvenju næmt fyrir breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sem geti haft veruleg áhrif á eignaverð í landinu, og gengi krónunnar. Bent er á að íslenska hagkerfið sé það minnsta í heimi með sjálfstæðan gjaldmiðil.

Mishkin og Tryggvi Þór segja í skýrslunni að hætta sé á að hræðsluáróður geti orðið að veruleika og að bankar og eftirlitsstofnanir verði að auka upplýsingaflæði og gengsæi.

Í skýrslunni segir að ójafnvægi íslenska hagkerfisins, sem hefur átt sér stað áður, muni jafna sig. Hins vegar benda hagfræðingarnir á fjórar megin breytingar, sem gætu verið af hinu góða. Mælt er með samruna fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands, viðskiptabankarnir verða að auka gegnsæi og upplýsingaflæði, minnka ætti vægi húsnæðisverðs í verðbólgumælingum og stjórnvöld ættu að setja saman reglur til að draga úr sveiflum í hagkerfinu.