Fjármálakreppan er orðin svo slæm að Rússar eru farnir að drekka minni vodka. Á þessum orðum hefst frétt Reuters um minnkandi eftirspurn eftir áfengi í Rússlandi. Vodka-birgðir í Rússlandi voru sex sinnum meiri í byrjun þessa mánaðar en þær voru á sama tíma í fyrra, þar sem verksmiðjur framleiða þennan þjóðardrykk nú hraðar en þær geta selt hann. „Fólk er að minnka útgjöld, þar á meðal í drykki, og þetta tengist áhrifum fjármálakreppunnar á ráðstöfunartekjur heimilanna,“ hefur Reuters eftir Pavel Shapkin, formanni NAA, sem er rússneska áfengisverslun ríkisins.

Rannsókn NAA sýnir einnig að dauðsföllum vegna áfengiseitrunar fjölgaði í 1.458 í september. Talsmenn NAA segja þetta vera vegna þess að Rússar skipti vodkanum út fyrir ódýrari en hættulegri drykki.

Rússneskur markaður hefur orðið illa úti í fjármálakrísunni og hlutabréfamarkaðurinn þar hefur dregist saman um 70% síðan í maí.

Rússar drekka 15 lítra af hreinu alkóhóli að meðaltali á mann á ári. NAA segir að í byrjun nóvember hafi 8,2 milljónir lítra af vodka verið í hillum verslana og á lagerum, eða rúmlega hálfur lítri á hvern Rússa.

„Ríkisstjórnin verður að gera eitthvað fyrir fólk svo að það hafi efni á helstu nauðsynjavörum,“ hefur Reuters eftir Shapkin. „Eins og staðan er núna getur hver sem er safnað gömlum flöskum, fyllt þær með einhverju glundri og selt alkóhólistum sem eru að reyna að spara pening.“

Um 70% þess áfengis sem Rússar drekka er vodki, en hálfs líters plastflaska af vodka kostar 50 rúblur, sem er andvirði um 1,8 Bandaríkjadala.