Greiningardeild Glitnis telur að allsnarpur samdráttur verði hér á landi árið 2009 með verulegri aukningu atvinnuleysis samfara mikilli verðbólgu í upphafi árs.

„Reikna má með því að samdrátturinn geti verið á bilinu 3%-7%, verðbólgan verði við upphaf næsta árs á bilinu 15%-20% og að atvinnuleysi fari á skömmum tíma í 4%- 5%. Verðbólgan mun hins vegar hjaðna hratt ef krónan gefur ekki enn meira eftir og aðilar vinnumarkaðarins elta ekki verðbólguna með launahækkun. Viðskiptahallinn ætti að hverfa fljótt og erlend skuldastaða batna. Skilyrði í hagkerfinu gætu orðið töluvert hagfelldari strax árið 2010,“ segir í umfjöllun um nýtt yfirlit sem greiningardeild Glitnis hefur tekið saman um hvaða áhrif kreppur, líkt og sú sem nú ríður yfir, hafa á ytra hagkerfið, fyrirtækin og heimilin.

„Heimilin hafa tekið á sig talsverðan skell undanfarið í rýrnun kaupmáttar og lækkun eignaverðs. Krónan hefur lækkað umtalsvert og aðgengi að erlendum gjaldeyri hefur verið takmarkað. Kostnaðarverðshækkun hefur verið mikil og mun kaupmáttur sem þegar hefur rýrnað halda áfram að rýrna á næstunni, bæði vegna aukinnar verðbólgu en einnig vegna vaxandi atvinnuleysis, en ljóst er að uppsagnir hjá innlendum fyrirtækjum verða umtalsverðar á næstunni. Heimilin eiga eftir að sjá það versta í þessari kreppu en bati kann að myndast þegar líða tekur á árið 2010,“ segir í yfirlitinu.

Nálgast má yfirlit Greiningar Glitnis hér á pdf-skjali.