Landframleiðsla Lettlands dróst saman um 18% milli ára fyrstu þrjá mánuði þessa árs og svo virðist sem efnahagskreppan þar í landi ætli engan afslátt að gefa en það eru helst framleiðsla og þjónusta sem dregst saman á ársfjórðungnum.

Lettland hefur komið mjög illa út úr þeirri fjármálakrísu sem nú ríkir og þurfti undir lok síðasta árs að fá 7,5 milljarða evra neyðarlán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hagkerfi Lettlands byggir að miklu leyti upp á verslun og þjónustu. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs dróst velta á hótelum og veitingastöðum saman um 34% milli ára, í smásölu um 23% og í sölu á varanlegum neysluvörum um 16%. Það er því nokkuð ljóst að áðurnefndir þættir draga landsframleiðsluna verulega niður.

Lettland, þar sem hagvöxtur hefur verið um 10% á ári síðustu fjögur ár, virðist ætla að koma verst Evrópusambandsríkja út úr fjármálakrísunni en fjármálaráðuneyti Lettland gaf nýlega út skýrslu þar sem gert er ráð fyrir 13% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári.