Gagarín hefur á undanförnum árum unnið fjölmörg verkefni í Noregi og hefur fyrirtækið meðal annars sett upp alls 44 gagnvirkar kortalausnir um þjóðgarða Noregs í 15 gestastofum víðs vegar um landið að sögn Geirs Borg, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Við leggjum mikla áherslu á það að gera sýningargestina að virkum þátttakanda í upplifuninni,“ segir Geir, en viðskiptavinir fyrirtækisins eru að hans sögn fjölmargir sýningaraðilar og söfn í Evrópu og Norður-Ameríku. „Þetta er ekki alveg hefðbundið, enda eiginlega blanda af upplifunarhönnun, tækni og má segja frásagnarlist. Flestir skilja hvað auglýsingastofur, hugbúnaðarfyrirtæki, vefstofur og kvikmyndafyrirtæki gera, en við erum eiginlega blanda af þessu öllu og svo ýmsu öðru til viðbótar.“

Verðlaunin mikilvæg

Geir er mjög stoltur af þeim fjölmörgu verðlaunum sem fyrirtækið hefur aflað sér á síðustu árum, en hann segir þau hafa verið mjög mikilvæg í að afla fyrirtækinu nýrra og spennandi verkefna. „Við erum ekki að framleiða einhverja hilluvöru, þetta er alltaf einhvers konar þróunarferli. Hér innanhúss erum við með mjög þverfaglegan hóp, bæði sprenglært fólk og sjálfmenntaða snillinga í gagnvirkri hönnun og margmiðlunarvinnslu, í hljóði og í hreyfimynda- og kvikmyndagerð. Svo erum við með öfluga hugbúnaðarsérfræðinga, í bæði miðlun og samskiptum á þessu stafræna og gagnvirka formi,“ segir Geir sem segir mjög skemmtilegt að fylgjast með svo mismunandi fólki starfa saman.

Nýsköpunarfyrirtæki á gömlum grunni

Fyrirtækið var stofnað árið 1994 sem alhliða hönnunar- og kvikmyndafyrirtæki en síðan hafa orðið miklar breytingar. „Það varð heilmikill skellur þegar fjármálakrísan reið yfir, því fram að því höfðum við fyrst og fremst verið að starfa hérna heima á Íslandi. Þá vorum við, má segja, að fara yfir víðan völl, og í raun að gera allt fyrir alla, við vorum að gera afþreyingar- og fræðsluefni, leiki og lausnir fyrir vef og farsíma, þannig að við vorum að starfa á mjög breiðu sviði,“ segir Geir sem segir fyrirtækið hafa þurft að íhuga stöðuna í hruninu.

Nánar er fjallað um Gagarín og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.