Kristófer Már Maronsson hagfræðinemi upplifði það af eigin skinni að honum fannst kennsla í grunnskóla ekki nægilega góð. „Þegar ég kláraði grunnskóla þá fannst mér lítið búið að kenna mér á fjármál þó að það væru þá einungis tvö ár þangað til ég varð fjárráða. Maður er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði þá, maður vinnur sumarvinnu og svo framvegis, en maður hefur ekki hugmynd um hvað launaseðill er. Það er eitthvað sem mætti byrja að kenna strax í áttunda bekk, þegar margir byrja að vinna,“ segir Kristófer.

Hann segir að það séu í raun glötuð tækifæri sem felast í því að kenna ekki ungu fólki fjármálaæsi fyrr og að hann hefði óskað þess að hafa lært grundvallaratriðin fyrr á lífsleiðinni. „Ef ég hefði áttað mig á því fyrr hvað það er dýrt að koma undir sig fótunum eða safna sér fyrir íbúð, hefði ég farið minna í bíó, sleppt tveimur utanlandsferðum og sýnt talsvert meira aðhald. Ég hefði til dæmis borðað meira heima frekar en að fara á skyndibitastaði. Þó að það þyki mjög töff, þá er það sömuleiðis svo óskynsamt að það hálfa væri meira en nóg.

Að kenna vaxtavexti í grunnskóla myndi til að mynda breyta þessu rosalega mikið, að kenna börnum að spara til lengri tíma. Að kenna muninn á óverðtryggðum og verðtryggðum vöxtum og varðandi lántökur og sparnað, þá á fólk að átta sig á því að stærsti sparnaðurinn er oftast að greiða niður lán, frekar en að vera með lán og leggja inn á sparnaðarreikning á meðan. Það er frekar óskynsamlegt. Þetta eru atriði sem er frekar auðvelt að kenna og glötuð tækifæri fyrir fólk sem er að koma undir sig fótunum,“ segir hann.

Hættulegt að vaða út í lántöku

Kristófer Már segir að margir í háskóla átti sig ekki almennilega á því hversu mikil skuldbinding það er að taka lán og honum finnst einnig að LÍN lán séu ekki góður vegvísir fyrir ungt fólk, sem þarf seinna meir að taka aðrar tegundir lána.

„Furðulega margir sem taka námslán skilja furðulega lítið hvernig námslán virka. Það er rosalega hættulegt að vaða út í lántöku án þess að átta sig almennilega á því hvernig lánið virkar. Það hefur líka komið fram í rannsóknum hjá nemendum sem hafa kannað lántöku hjá LÍN, hvað nemendur vita í raun lítið um lánin sem þau eru að taka. Þetta eru skuldbindingar sem þarf að standa við. Að sama skapi er það ekki gott að einstaklingar læri á lánakerfin í gegnum LÍN. Það er öðruvísi lánakerfi en er notað í hinum raunverulega heimi. Því er gott að læra það áður,“ segir hann.

Væri gott að búa til tölvuleik í fjármálalæsi

Kristófer segir að honum þætti það góð hugmynd að búa til tölvuleik sem endurspeglar lífsleiðina. „Þá geta nemendur gert mistök, áður en haldið er út í lífið. Þar geta nemendur tekið ákvarðanir á borð við það hvort haldið skal í nám, eða hvort það eigi að fara beint út á vinnumarkað. Hvaða áhrif hefur það? Á ég að eyða í neyslu eða á ég að spara?“ segir hann að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Fjármálalæsi, aukablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.