Samkvæmt nýrri skýrslu um atvinnuhúsnæðismarkaðinn verður staðsetning sífellt mikilvægari. Þetta ítrekar Magnús Árni Skúlason, einn höfunda, sem segir þetta sérstaklega eiga við um skrifstofuhúsnæði þar sem vinnuveitendur horfi í auknum mæli til gæða almenningssamgangna og jafnvel hjóla- og göngufjarlægðar frá íbúðabyggð.

Hvað skrifstofur varðar er Borgartúnið sérstaklega vinsælt og er leiguverð þar hæst. Verðið er einnig hátt í Kringlunni og miðbænum.

Uppbygging í Borgartúninu hefur verið hröð á síðustu árum en á svæðinu eru nú um 16 þúsund fermetrar lausir. Þar af eru 7 þúsund fermetrar lausir í Höfðatorgi. Svo virðist sem hratt gangi á laust skrifstofuhúsnæði en framboðið hefur minnkað í um það bil 16 þúsund fermetra frá haustinu 2010 þegar rúmlega 33 þúsund skrifstofufermetrar voru lausir. Breytingin er þeim mun meiri þar sem framboðið hefur vaxið á sama tímabili.

Turninn í Borgartúni virðist sérstaklega vinsæll núna og hafa ýmis fyrirtæki og stofnanir á síðustu mánuðum flutt starfsemi sína þangað. Magnús Árni segir þróunina virðast þannig að stærri fyrirtæki sækist eftir fyrsta flokks staðsetningu og húsnæði, þó að leiguverð sé þar hærra fyrir sambærilegt húsnæði annars staðar. Til dæmis megi í Borgartúninu nefna skemmtileg umbreytingarverkefni þar sem leigusali Advania endurnýjaði gamalt húsnæði með skemmtilegum hætti.

Magnús Árni vekur jafnframt athygli á því hvernig höfuðborgin hefur þróast. „Jafnvel er orðið hægt að greina klasamyndun í ákveðnumatvinnugreinum, enda er maður manns gaman,“ segir hann. Dæmi um þetta er Borgartúnið en þangað sækja til dæmis fjármála- og ráðgjafafyrirtæki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.