Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ekki bjartsýnn um áframhaldandi vöxt rafmynta og telur ólíklegt að þær muni velta hefðbundinni greiðslumiðlun úr sessi. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um rafmyntir.

Fjármálaráðherra segir að margt spili gegn því að rafmyntir nái sömu útbreiðslu og hefðbundin greiðslumiðlun gerir í dag. Ber þar helst að nefna kostnaðinn við þær, óstöðugt gengi og að núverandi tækni ráði ekki við tíð viðskipta.

„Rafmyntir eru enn lítið notaðar í hefðbundinni greiðslumiðlun. Megnið af viðskiptunum virðist vera vegna spákaupmennsku með myntirnar en gengi rafmynta er mjög óstöðugt. Einnig fer mikið af viðskiptum með rafmyntir fram á svörtum mörkuðum þar sem kaupendur vilja njóta nafnleyndar. Enn fremur er enn þá talið að tæknin ráði ekki við tíð viðskipti eins og færslukerfi hefðbundinna greiðslumiðlunarfyrirtækja sem starfa á heimsvísu gera," segir í svarinu.

Þá segir hann að gríðarmikla raforku þurfi til að knýja gagnaver sem að grafa eftir rafmyntum. Þá er mikill kostnaður sem fylgir því að halda gagnaverum gangandi, sérstaklega í orku og tölvubúnaði. Hann telur að þar geti leynst tækifæri fyrir íslenskan iðnað. „Engu að síður er markaður fyrir rafmyntir nú þegar nokkuð stór og á meðan að hann heldur velli verða til staðar tækifæri til að nýta ódýra og umhverfisvæna orku hér landi í rafmyntaiðnað."