Benedikt Jóhennesson, formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra hefur verið óhræddur við að segja sína skoðun á vaxtastiginu í landinu, en í byrjun mánaðarins hvatti hann peningastefnunefnd Seðlabankans til að „taka á sig rögg […] og lækka vextina myndarlega“.

„Ég fagna ákvörðun bankans,“ segir Benedikt. „Hægt er að segja að hún hafi verið í samræmi við mínar væntingar, þó að ég hafi vonað að lækkunin yrði meiri. Það er hlutverk peningastefnunefndarinnar að ákveða þessa vexti og ég hef fullan skilning á því að hún vilji taka varfærin skref.

Þessi ákvörðun er líklega í samræmi við væntingar markaðarins, en ég hef þó trú á því að þegar vaxtamunur milli Íslands og útlanda minnkar muni menn í auknum mæli horfa til erlendra fjárfestinga. Á það er líka að líta að raungengi er að ná methæðum og því er örugglega skynsamlegt út frá áhættudreifingarsjónarmiðum að horfa meira til útlanda en fjárfestar hafa gert. Þetta getur líka á við um almenning sem á sparnað.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .