Fjármálaeftirlitið (FME) lagði á það ríka áherslu að Sjóvá yrði ekki sett í þrot. Veigamestu rök eftirlitsins fyrir því voru þau að gjaldþrot félagsins hefði „alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir fjármálastarfsemina hér á landi þ.á.m. neytendur.“  Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um á hvaða lagaheimild 11,6 milljarða króna framlag hins opinbera til endurreisnar Sjóvá byggði.

Fjármálaráðherra segir að kaupin hafi verið byggð á heimild í fjárlögum ársins 2009 og fjáraukalögum ársins 2008 sem heimili honum „að kaupa af Seðlabanka Íslands þau viðskiptabréf sem bankanum hafa verið afhent til tryggingar veðlánum bankans og annast uppgjör þeirra krafna eins og hagkvæmast þykir.“

Telur ráðherrann að þær heimildir veiti honum nægjanlegt svigrúm til að annast uppgjör krafna ríkisins með „framangreindum hætti enda var það metið svo að þetta væri hagkvæmasti og besti kosturinn fyrir ríkissjóð við innheimtu umræddra skuldbindinga, auk þess sem gjaldþrot stórs tryggingafélags á þessum viðkvæma tíma hefði getað valdið þjóðfélaginu stórfelldu tjóni“.

Í svarinu kemur fram að FME hefði metið það svo að Sjóvá væri „á meðal þeirra fjármálafyrirtækja sem veittu ákveðna grunnþjónustu hér á landi og gegndi því mjög mikilvægu þjóðfélagslegu hlutverki. Mikilvægt væri því að mati stofnunarinnar að allt yrði gert sem unnt væri til að verja hagsmuni neytenda í þessu efni. Því studdi stofnunin og mælti eindregið með þeirri leið sem farin var til að forða félaginu frá gjaldþroti með aðkomu ríkissjóðs, Glitnis hf. og Íslandsbanka.
Það fé sem vantaði inn í sjóði Sjóvá til að gera félagið starfhæft samkvæmt skilyrðum FME nam um 16 milljörðum kr. Skilanefnd Glitnis var reiðubúin til að leggja fram um 2,8 milljarða kr. til lausnar málinu og Íslandsbanki um 1,5 milljarða kr.” Afgangurinn kom frá ríkinu.

Svar fjármálaráðherra er hægt að lesa hér