Robert Peston, sem ritstýrir viðskiptafréttum BBC, segir á Twitter síðunni sinni að franski fjármálaráðherrann, Christine Lagarde, sé líklegust til að taka við framkvæmdastjórastarfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af Dominique Strauss-Kahn. Eins og komið hefur fram er Strauss-Kahn ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart hebergisþernu á hótelherbergi á Manhattan.

Financial Times velti því fyrir sér í forystugrein í dag hvort leitað yrði að eftirmanni framkvæmdastjórans utan Evrópu. Peston segir á Twitter síðu sinni að fulltrúar Evrópu innan AGS krefjist þess að framkvæmdastjórinn komi úr þeirra röðum. Nú hafi Bandaríkjamenn samþykkt það og þá sé útilokað að aðrir komi til greina. Samkvæmt þessu eru dagar Strauss-Kahn taldir hjá AGS.

Christine Lagarde er mikils metin í sínu heimalandi. Það getur verið að Sarkozy Frakklandsforseti verði tregur að láta hana fara úr ríkisstjórninni þegar kosningar eru í vændum í frönskum stjórnmálum á næsta ári. Í umfjöllun um Lagarde í The Guardian nýlega segir að hún tjái hug sinn umbúðalaust. Hún hafi meðal annars sagt að efnahagshrunið hafi verið alþjóðlegum bönkum að kenna sem var stjórnað af körlum sem voru útbólgnir af testósteróni. Þá er hún metnaðarfull, klár og hafi verið fyrsta konan til að stjórna í G8, samtökum mestu iðnríkja heimsins.