„Við segjum oft í gamni að á meðan aðrir eru að blóta auknu flækjustigi í skattamálum, og það hefur vissulega aukist, ættum við að fagna og gera fjármálaráðherra að heiðursfélaga í Félagi löggiltra endurskoðenda,“ segir Margrét Sanders, framkvæmdastjóri hjá Deloitte á Íslandi. „Skattakerfið var orðið mjög einfalt hér, en á síðustu árum hefur það orðið mun flóknara, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Skattadeildin okkar þarf að hafa sig alla við til að fylgjast með öllum þessum laga- og reglubreytingum. Það eru því miklu fleiri sem þurfa raunverulega á aðstoð að halda í þessum málum. En auðvitað er það ekki gott fyrir okkur til lengdar. Við þurfum á mörgum heilbrigðum viðskiptavinum að halda og ef skattaumhverfið er orðið þesslegt að það drepur vöxt og viðgang fyrirtækja getum við ekki annað en tapað á því eins og aðrir.“

Margrét segir að þar sem Deloitte er að þjónusta fyrirtækin í landinu fer það ekki fram hjá sérfræðingum að það eru erfiðleikar í viðskiptalífinu, en auðvitað er það misjafnt eftir greinum. „Nú sé ég um rekstur á Deloitte, sem er meðalstórt fyrirtæki með 230 manns í vinnu, og sé því sjálf hver áhrifin eru af skattahækkunum. Sem dæmi þá er launakostnaður um 70% af heildarkostnaði og því bítur hækkun á tryggingagjaldi mjög í hjá okkur. Við höfum sem betur fer ekki þurft að segja upp fólki, en við höfum minna ráðið inn af nýju starfsfólki frá hruni. Þetta er bein afleiðing af skattahækkunum og ég hef tilfinningu fyrir því að við séum ekki ein á báti hvað þetta varðar.“

Ítarlegt viðtal við Margréti má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.