Krónan verður áfram í höftum með einum eða öðrum hætti felli þjóðin aðild landsins að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðismanna, spurði Steingrím í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi, út í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í síðustu viku. Í áætluninni segir m.a. að krónan sem íslensku gjaldmiðill muni áfram verða í viðjum hafta.

„Þetta eru gríðarlega mikil tíðindi. Það leynir sér ekki að sá sem stýrir pennan um hefur ekki mikla trú á íslensku hagkerfi. Mér finnst það alvarlegur hlutur þegar tímasetning afnáms gjaldeyrishafta er boðuð með þeim hætti að hér eru boðuð varanleg höft,“ sagði Einar.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að móta verði peninga- og gjaldmiðlastefnu til framtíðar með hliðsjón af því hverjar gætu orðið mögulegar sviðsmyndir á komandi árum.

„Jafnvel þótt við ljúkum samningum við ESB þá kann þjóðin að hafna því,“ sagði Steingrímur og benti á mikilvægi þess að innleiða hér aga í ríkisfjármálum og hagstjórn til að tryggja stöðugleika fari svo að málið verði fellt og innleiðing evru verði þar með að engu. Verði það raunin verði krónan notuð áfram með einhverju formi af höftum. „Enginn hefur sýnt fram á að það sé ekki hægt. Mistök fortíðar eru ekki sönnun þess að ekki megi gera betru á komandi árum,“ bætti hann við en ítrekaði að áætlun um afnám gjaldeyrishafta væri enn í gildi.