Fjármálaráðherra Grikklands, Yannis Stournaras, segist sjá ljós fyrir enda lestarganganna sem Grikkland hefur verið að keyra í gegnum undanfarin ár. Í frétt BBC er haft eftir Stournaras að hið versta sé yfirstaðið hjá Grikklandi og að nú séu afar litlar líkur á því að Grikkland yfirgefi evruna.

Hann segir að grískum stjórnvöldum hafi tekist að snúa við hagkerfinu og að mun meiri bjartsýni ríki á mörkuðum. Innstæður séu aftur farnar að koma inn í bankana og að stjórnvöld séu farin að greiða skuldir sínar við einkageirann. Þá sé hægt að merkja breytingu á því hvernig önnur Evrópuríki líta á Grikkland. Fólk geti farið að vona á ný.

Í frétt BBC segir hins vegar að lítil merki sé að finna um slíka von. Atvinnuleysi sé hvergi meira í Evrópu en í Grikklandi, eða 26,8%. Heimilislausum og fátækum hafi fjölgað gríðarlega og að gríska hagkerfið hafi verið í sex ára samfelldri niðursveiflu. Stournaras segist hins vegar halda að gríska hagkerfið verði farið að vaxa á ný fyrir lok þessa árs.