Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, er nánast tilbúinn að útiloka að Grikkir yfirgefi Evrusvæðið. Segir hann að sú róttæka aðgerð myndi ekki skila sér í góðri lausn á skuldavanda þjóðarinnar. Vill hann meina að endurskipulagning skulda sé eina lausnin. Þessu greinir Reuters frá.

Mikið hefur verið rætt um möguleikann á svokölluðum „Grexit“, að Grikkland einfaldlega gefist upp og yfirgefi Evruna og taki upp sjálfstæðan gjaldmiðil á ný. Orðrómarnir um slíkar aðgerðir hafa orðið háværari í ljósi þess að samningaviðræður Grikklands við lánadrottna sína mjakast lítið sem ekkert áfram og sigldu þær nú síðast í strand á dögunum.

Sigmar Gabriel, efnahagsráðherra og varakanslari Þýskalands, greindi frá því í síðustu viku að Evrópa væri að missa þolinmæðina gagnvart Grikkjum, sem neita ennþá að verða við kröfum lánadrottna um niðurskurð á ýmsum sviðum í heimalandinu. Stjórnarflokkurinn Syriza komst til valda fyrr á árinu einmitt vegna þess að hann lofaði grísku þjóðinni að Grikkir myndu ekki láta Evrópusambandið þvinga sig til sársaukafullra aðgerða.

„Ég útiloka „Grexit“ sem rökréttan kost,“ sagði Varoufakis við þýska dagblaðið Bild og átti hann þar við útgöngu Grikklands úr Evrópusambandinu.

„En enginn getur útilokað alla hluti. Ég get ekki útilokað að lofsteinn muni lenda á jörðinni.“

Varoufakis trúir því að Grikkir geti náð samkomulagi við lánadrottna um að fá neyðarlán og það fljótt. Hann segir að eina leiðin til að Grikkir geti greitt til baka skuldir sínar sé ef endurskipulagning þeirra á sér stað. Telur hann að það myndi hjálpa til við viðræður ef Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fær sér sæti við samningaborðið.

„Við viljum ekki meiri peninga,“ sagði Varoufakis og bætti því við að hann væri mjög gagnrýninn á björgunaraðgerðir. Vildi hann meina að Þýskaland og önnur lönd á Evrusvæðinu hefðu þegar gefið Grikklandi „allt of mikinn“ pening.

„Við gætum náð samkomulagi á einni kvöldstund. En kanslarinn yrði að taka þátt í viðræðunum.“

Evrópusambandið hefur kennt Grikkjum um að nýjustu samningaviðræður hafi siglt í strand og sagði að Grikkir hefðu ekki boðið upp á neinar málamiðlanir til að fá neyðarlán sem stjórnvöld þar þurfa til að greiða 1,6 milljarða evra lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir mánaðamót.